Vetrarbrautin okkar
Ef þú ferð út fyrir borgar- eða bæjarljósin á stjörnubjartri tunglskinslausri vetrarnóttu, kemur þú fljótt auga á daufa, ljósleita slæðu sem liggur þvert yfir himinninn.
Þetta er Vetrarbrautin okkar og allar stjörnurnar á himninum tilheyra henni.
Fyrr á tímum höfðu menn engar skýringar á slæðunni.
Víkingarnir, forfeður okkar, sáu hana fyrir sér sem veginn sem hinir látnu gengu á til Valhallar.
Í huga Inka í Suður Ameríku var slæðan fljót sem veðurguðinn Apu Illapu veitti vatni á til að útbúa regn.
Egiptar höfðu svipaða sögu að segja. Þeir álitu Vetrarbrautina hið himneska Nílarfljót.
Í grískri goðafræði hugðist Seifur gera son sinn Herkúles ódauðlegan á meðan hann var ungabarn með því að leyfa honum að sjúga mjólk úr brjósti Heru, konu sinnar, sem þó var ekki móðir Herkúlesar.
Í skjóli nætur læddist Seifur að Heru og lagði Herkúles við brjóst hennar sem byrjaði að drekka. Hera vaknaði við bröltið, reif brjóst sitt úr munni Herkúlesar svo mjólkin úr brjósti hennar spýttist yfir himinninn.
Þess vegna heitir Vetrarbrautin okkar Milky Way eða Mjólkurslæðan í ýmsum tungumálum.
Í dag vitum við að Vetrarbrautin er samansafn 200 til 400 milljarða stjarna. Sólin okkar er ein þeirra svo við Jarðarbúar tilheyrum Vetrarbrautinni líka. Þrátt fyrir allan þennan stjörnuskara er svo langt bil á milli stjarnanna að Vetrarbrautin er næstum galtóm!
Vetrarbrautin okkar liggur eins og dauf ljósleit slæða yfir himinhvolfið. Mynd: ESO/S. Brunier |
Hvernig lítur Vetrarbrautin okkar út?
Teikning af Vetrarbrautinni okkar séðri ofan frá. Mynd: NASA/JPL-Caltech/R. Hurt (SSC-Caltech) |
Á næturnar sést að stjörnurnar eru ekki jafndreifðar um himinninn. Flestar eru í fölhvítu slæðunni sem liggur þvert yfir himinninn, eins og sést á myndinni fyrir ofan.
Við búum innan í þessari slæðu og getum því aldrei séð Vetrarbrautina ofan frá.
Slæðan sýnir okkur að Vetrarbrautin er eins og skífa í laginu og með bungu í miðjunni — ekki ósvipuð spældu eggi!
Þegar stjörnufræðingar mæla fjarlægðir til stjarnanna á næturhimninum — og búa síðan til kort af dreifingu þeirra — kemur í ljós að við búum í vetrarbraut sem hefur áberandi arma úr stjörnum og stjörnubjálka í miðjunni.
Þannig höfum við fundið út að við búum einum þyrilarmi bjálkaþyrilvetrarbrautar!
Vetrarbrautin okkar er svo stór að ljós er 100.000 ár að ferðast enda á milli. Vetrarbrautin er eins og risavaxinn svelgur sem snýst á um 200 milljón árum.
Í örmunum fæðast stjörnurnar úr gas- og rykskýjum. Þær skærustu eru mjög heitar og bláhvítar svo armarnir eru bláleitir.
Í miðbungunni eru gamlar stjörnur. Þær eru gular, appelsíngular og rauðar svo bungan er gulleit.
Með sjónaukum sjáum við aðrar fjarlægari vetrarbrautir sem einnig eru skífulaga og með þyrilarma og bjálka.
Er svarthol í miðju Vetrarbrautarinnar?
Ferðalag að svartholinu í miðju Vetrarbrautarinnar. Í lok myndskeiðsins sérðu stjörnur snúast í kringum eitthvað þungt og ósýnilegt — risasvarthol! Myndskeið: ESO |
Mjög erfitt er að skyggnast inn í miðju Vetrarbrautarinnar vegna gas- og rykskýja sem byrgja okkur sýn.
Sjónaukar sem nema innrautt ljós gera stjörnfræðingum þó kleift að horfa í gegnum skýin og svipta hulunni af miðju Vetrarbrautarinnar.
Í miðjunni sjást fjölmargar stjörnur snúast hratt í kringum eitthvað ósýnilegt en mjög massamikið.
Þegar við mælum þennan ósýnilega massa kemur í ljós að hann inniheldur fjórum milljón sinnum meria efni en sólin, á svæði sem er minna en sólkerfið okkar!
Í miðju Vetrarbrautarinnar er sem sagt risasvarthol!
Stjörnufræðingar hafa nýlega fylgst með risasvartholinu éta gasský!
Stjörnufræðingar hafa fundið risasvarthol í miðjum næstum allra vetrarbrauta. Svartholið okkar er frekar létt í samanburði við mörg önnur.
Hefur Vetrarbrautin okkar fylgivetrarbrautir?
Stóra Magellansskýið er stærsta fylgivetrarbrautin okkar. Mynd: ESO/R. Gendler |
Í kringum Vetrarbrautina er svermur um 200 kúlulaga stjörnuþyrpinga. Allar þessar kúluþyrpingar eru mjög gamlar og innihalda allt að eina milljón stjörnur.
Auk kúluþyrpinga hefur Vetrarbrautin okkar um það bil 20 „tungl“ eða fylgivetrarbrautir. Allar fylgivetrarbrautirnar eru miklu minni en Vetrarbrautin okkar. Þær eru því kallaðar dvergvetrarbrautir.
Einu dvergvetrarbrautirnar sem sjást með berum augum frá suðurhveli Jarðar eru Magellansskýin. Þau eru nefnd Stóra og Litla og draga nafn sitt af portúgalska landkönnuðinum Ferdinand Magellan.
Stóra Magellansskýið er stærsta fylgivetrarbrautin. Hún er í 163.000 ljósára fjarlægð frá okkur.
SpaceScoop fréttir um Vetrarbrautina okkar
-
2. apríl 2013 – Veldi Vetrarbrautarinnar
Höfundur: Sævar Helgi Bragason