Vetrarbrautir
Stjörnuþokur
Skoðaðu myndina hér að ofan. Þessa mynd tók Hubble geimsjónaukinn af svæði á himninum sem er á stærð við títuprjónshaus, haldið í útréttri hendi. Til að taka myndina þurfti Hubble að stara á sama stað á himninum í meira en 11 daga!
Með berum augum virðist svæðið galtómt en Hubble sá þar 10.000 vetrarbrautir — sem stundum eru líka kallaðar stjörnuþokur — af ýmsum stærðum og gerðum en líka af ýmsum aldri.
Hver einasta vetrarbraut á myndinni er risavaxið safn stjarna og reikistjarna, gass og ryks. Í vetrarbrautum eru frá nokkrum milljónum upp í meira en þúsund milljarðar stjarna af öllum stærðum og gerðum!
Vetrarbrautir eru svo stórar að stærð þeirra mælist í mörg þúsund ljósárum. Til dæmis er Vetrarbrautin okkar hundrað þúsund ljósár í þvermál!
Hver uppgötvaði að til eru aðrar vetrarbrautir?
Stjörnufræðingurinn Edwin Hubble gerði eina mestu vísindauppgötvun allra tíma. |
Edwin Hubble uppgötvaði að til eru aðrar vetrarbrautir.
Snemma í október árið 1923 tók hann nokkrar myndir af Andrómeduþokunni með stærsta sjónauka heims. Þegar hann framkallaði myndirnar sá hann að ein stjarnan breytti birtu sinni reglulega.
Hubble vissi að hann gat notað þessa sérstöku stjörnu til að reikna út vegalengdina til Andrómeduþokunnar, með aðferð sem kona að nafni Henrietta Leavitt hafði fundið upp.
Útreikningar Hubbles sýndu að þokan var í næstum milljón ljósára fjarlægð frá okkur. Vetrarbrautin okkar er um 100.000 ljósár að stærð svo Andrómeduþokan var langt fyrir utan hana.
Ef Andrómeda var svona langt í burtu en samt sjáanleg með berum augum, þá hlyti hún að innihalda milljarða stjarna, eins og Vetrarbrautin okkar.
Hubble hafði uppgötvað aðra vetrarbraut! Þetta er ein áhrifamesta visindauppgötvun allra tíma. Vetrarbrautin okkar var aðeins ein af ótalmörgum í risastórum alheimi.
Hvað eru til margar vetrarbrautir?
Enginn hefur nákvæma tölu á fjölda vetrarbrauta í alheiminum. Þær eru næstum því óteljandi!
Við getum þó áætlað fjölda vetrarbrauta með því að telja hversu margar við sjáum á myndinni efst. Ef við gerum það sjáum við fljótt að í alheiminum eru líklega í kringum 400 milljarðar vetrarbrauta!
Til samanburðar er mannfólkið „aðeins“ sjö milljarðar talsins! Í alheiminum eru 57 sinnum fleiri vetrarbrautir en menn!
Eru allar vetrarbrautir eins?
Þegar við beinum sjónaukum okkar út í geiminn sjáum við að vetrarbrautirnar eru mismunandi útlits. Sumar hafa fallega arma á meðan aðrar eru sviplausar. Sumar eru rauðleitar en aðrar bláleitar.
Þegar Edwin Hubble hafði fundið út fjarlægðir nokkurra vetrarbrauta hóf hann að flokka þær eftir útliti. Hubble skipti vetrarbrautum í fjórar gerðir:
Þyrilvetrarbrautir sem eru flatar, skífulaga, með bláleita þyrilarma úr stjörnum og ryki og rauðleita kúlulaga bungu í miðjunni. Þyrilvetrarbrautir eru bláleitar því þær hafa mikið af ungum, nýfæddum, heitum stjörnum. Nýjar stjörnur fæðast úr gasinu og rykinu í örmunum. Bungan er rauðleit því þar eru kaldari og eldri stjörnur. |
|
Bjálkaþyrilvetrarbrautir sem eru eins og þyrilvetrarbrautir, nema bjálki úr stjörnum gengur í gegnum miðjuna. Við búum í bjálkaþyrilvetrarbraut. |
|
Sporvöluvetrarbrautir sem eru sporöskjulaga og sviplausar með bjarta miðju. Þær eru oft rauðleitar því þær innihalda mikið af gömlum stjörnum og nánast engar nýjar. Stærstu vetrarbrautirnar í alheiminum eru sporvöluvetrarbrautir. |
|
Óreglulegar vetrarbrautir eru einfaldlega þær vetrarbrautir sem falla ekki í hina flokkana þrjá. |
Geta vetrarbrautir rekist saman?
Loftnetið nefnast þessar tvær vetrarbrautir sem eru að rekast saman og mynda eina stóra vetrarbraut. Mynd: NASA/ESA |
Alheimurinn er stór og að mestu tómur. Þrátt fyrir það verða stundum árekstrar milli vetrarbrauta í geimnum.
Árekstrar vetrarbrauta gerast ekki snögglega eins og bílaárekstrar, heldur standa þeir yfir í margar milljónir ára vegna þess að vetrarbrautirnar eru svo stórar.
Við árekstrana afmyndast vetrarbrautirnar. Nánast engar stjörnur rekast saman en það gera hins vegar gas- og rykskýin. Við árekstra þeirra verður til stjörnumyndunarhrina.
Að lokum renna vetrarbrautirnar svo saman og mynda eina stóra vetrarbraut.
Þetta á eftir að koma fyrir okkur líka. Eftir fjóra milljarða ára mun Vetrarbrautin okkar rekast á nágranna okkar í geimnum, Andrómeduvetrarbrautina. Þá mun sólin líklega kastast yfir í annan hluta vetrarbrautarinnar.
SpaceScoop fréttir af vetrarbrautum
-
21. júní 2013 - Skrá yfir sérkennilegar vetrarbrautir
-
28. mars 2013 - Hvað sérðu á þessari ljósmynd?
-
19. mars 2013 - Friðurinn rofinn í friðsælli vetrarbraut
-
2. mars 2013 - Önnur hlið á vetrarbrautaskrímsli
-
17. desember 2012 - Megi krafturinn vera með þér
-
6. desember 2012 - Vetrarbraut í skotlínunni
-
6. desember 2012 - Frá litlum grænum körlum til stórra grænna vetrarbrauta!
-
16. maí 2012 - Hvar liggja mörk vetrarbrautarinnar?
-
21. mars 2012 - Býsnin öll af vetrarbrautum!
-
14. mars 2012 - Gráðugar vetrarbrautir á unglingsaldri
Höfundur: Sævar Helgi Bragason