Einmana reikistjarna týnd í geimnum

14. nóvember 2012

  • CFBDSIR2149, fjarreikistjarna

Reikistjarna á flandri hefur fundist á reki um geiminn án móðurstjörnu! Þessi litli munaðarleysingi er talinn hafa myndast á sama hátt og venjulegar reikistjörnur: Úr leyfum efnis umhverfis unga stjörnu. Af einhverri ástæðu skaust þó þessi reikistjarna burt úr heimkynnum sínum.

Reikistjörnur gefa ekki frá sér eigið ljós. Ef þú hefur einhvern tímann séð Venus, Mars eða Júpíter á næturhimninum, ertu í raun að sjá endurvarp sólarljóssins af þeim. Reikistjörnur á flandri eru ekki nálægt neinum stjörnum og endurvarpa þess vegna ekki neinu ljósi svo mjög erfitt er að koma auga á þær. Stjörnufræðingar telja raunar að þessir flakkarar gætu verið algengari en stjörnur í vetrarbrautinni okkar, við höfum bara átt erfitt með að sjá þá!

Það er alltaf erfitt að mæla stærð fyrirbæris sem er svona langt í burtu. Prófaðu að horfa á skip við sjóndeildarhringinn og giska á hversu stórt það er. Það er enn erfiðara þegar fyrirbæri er mjög dauft og svífandi um geiminn. Stjörnufræðingar viðurkenna að þeir gætu hafa misreiknað stærð flakkarans — kannski er þetta ekki reikistjarna eftir allt saman heldur brúnn dvergur! Brúnir dvergar eru fyrirbæri sem eru miklu stærri en reikistjörnur — allt að 80 sinnum stærri en Júpíter — en of litlar til að vera stjörnur. Þeir brenna ekki vetni í kjörnum sínum eins og stjörnurnar og eru þess vegna of kaldir til að skína skært.

Hvort sem þessi flakkari er reikistjarna eða ekki myndirðu sennilega ekki vilja búa á honum. Hann svífur um í endalausu myrkri geimsins svo þetta er dimmur og einstaklega einmanalegur staður!

Skemmtileg staðreynd: Sumir stjörnufræðingar telja að það gætu verið tvöfalt fleiri reikistjörnur á flandri en stjörnur í vetrarbrautinni okkar; aðrir telja að þær séu allt að 100.000 sinnum fleiri!

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop.

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop

Tengdar myndir

  • fjarreikistjarnaÞessi teikning sýnir munaðarlausu reikistjörnuna CFBDSIR J214947.2-040308.9. Hún hringsólar ekki um stjörnu og endurvarpar þar af leiðandi ekki neinu ljósi; einungis er hægt að greina daufan bláan innrauðan bjarmann sem það gefur frá sér. Reikistjarnan er svo köld að ef við sæjum það í návigi væri hún dimmrauð á litinn. Mynd: ESO/L. Calçada/P. Delorme/Nick Risinger (skysurvey.org)/R. Saito/VVV Consortium
  • fjarreikistjarÞessi ljósmynd sýnir munaðarlausu reikistjörnuna (fölblár blettur á miðri mynd) Mynd: ESO/P. Delorme

 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica