Til hamingju, það er reikistjarna!
Þegar kona er ólétt fer hún í ómskoðun til þess að læknar geti skyggnst inn í móðurlífið og kannað hvernig barnið þroskast. Stjörnufræðingar gerðu nýlega svipaðar athuganir á nálægri stjörnu — fyrir slysni! Þegar þeir skoðuðu gas- og rykskífu í kringum stjörnuna, komu þeir óvænt auga á reikistjörnu á fósturstiginu að þroskast! Þetta er í fyrsta sinn sem reikistjarna hefur sést svo snemma á ævi hennar. Myndin hér að ofan sýnir hvernig listamaður ímyndar sér að reikistjarnan líti út í návígi.
Stjörnufræðingar kalla reikistjörnur fyrir utan sólkerfið okkar „fjarreikistjörnur“. Leitin að fjarreikistjörnum er eitt mest spennandi sviðið í stjörnufræði í augnablikinu. Um 850 fjarreikistjörnur hafa fundist hingað til en mjög sjaldgæft er að það náist að taka myndir af þeim. Það er vegna þess að reikistjörnur eru miklu daufari en stjörnurnar sjálfar og hverfa í birtunni frá stjörnunum. Þetta er eins og að reyna að sjá flugvél í fjarska fyrir framan sólina.
Sennilega hefur þessi unga stjarna eina reikistjörnu á braut um sig en hún er sex sinnum lengra frá henni en Jörðin er frá sólinni okkar. Nýja reikistjarna er meira en tíu sinnum fjarlægari! Og þótt reikistjarnan sú sé ung, er hún svo sannarlega ekki lítil — stjörnufræðingar áætla að hún sé álíka stór og Júpíter en Jörðin kæmist 1000 sinnum fyrir innan í honum!
Stjörnufræðingar telja að risareikistjörnur vaxi með því að fanga gas og ryk sem varð afgangs eftir að stjarnan myndaðist. Nýju athuganirnar styðja það: Reikistjarnan er djúpt innan í efnisskífunni umhverfis stjörnuna og margir staðir þar sem reikistjörnurnar og stjarnan víxlverka enn beint.
Fróðleg staðreynd: Stærsta fjarreikistjarna sem fundist hefur nefnist „CD-35 2722“. Sú risareikistjarna er meira en 10.000 sinnum stærri en Jörðin!
Tengdar myndir
- Hér sést hvernig listamaður ímyndar sér risareikistjörnu sem er að þroskast í rykskífu í kringum ungu stjörnuna HD 100546. Mynd: ESO/L. Calçada