Satúrnus
Hringadróttinn
Í níu sinnum meiri fjarlægð frá sólinni en Jörðin er sjötta reikistjarna sólkerfisins, Satúrnus. Hann er gulleitur og umvafinn glæsilegum hringum og forvitnilegum tunglum.
Grikkir kölluðu Satúrnus Krónos og var hann eitt sinn æðstur guðanna. Því var spáð að eitt barna Krónosar myndi steypa honum af stóli. Til koma í veg fyrir það át hann þau um leið og þau komu í heiminn.
Kona Krónosar hér Rhea. Hún var komin vel á leið með yngsta barn þeirra Seif þegar hún lagði á ráðinn um að koma honum í öruggt skjól frá föður sínum. Þegar Seifur kom loks í heiminn faldi hún hann. Hún rétti Krónosi stein sem var vafinn í föt sem hann gleypti. Seifur ólst síðan upp hjá ömmu sinni.
Þegar Seifur var orðinn stálpaður neyddi hann föður sinn til að kasta upp systkinum sínum og steypti honum svo stóli.
Í ýmsum tungumálum er laugardagur dagur Satrúrnusar, samanber Saturday á ensku. Indverjar kalla laugardag Shanivar eftir Sani, hliðstæðu Satúrnusar.
Hvað er Satúrnus stór?
Sólin í samanburði við reikistjörnurnar og dvergreikistjörnurnar í sólkerfinu okkar. Mynd: Roberto Ziche |
Satúrnus er næst stærsta reikistjarna sólkerfisins — aðeins Júpíter er stærri — níu sinnum breiðari en Jörðin. Ef Jörðin væri á stærð við hindber væri Satúrnus álíka stór og fótbolti. Væri Satúrnus holur að innan kæmust meira en 700 Jarðir fyrir innan í honum.
Til að finna út hversu þungur Satúrnus er þurfa stjörnufræðingar að nota þriðja lögmál Jóhannesar Keplers. Í ljós kemur að Satúrnus er 95 sinnum þyngri en Jörðin.
Þegar þyngdin og rúmmálið eru þekkt má reikna út eðlismassann. Eðlismassi Satúrnusar er aðeins 0,7 g/cm3, minni en eðlismassi vatns. Það þýðir að Satúrnus er eina reikistjarnan sem gæti flotið á vatni! Jörðin sykki eins og steinn en Júpíter flyti eins og ísjaki.
Úr hverju er Satúrnus?
Með því að skoða ljósið sem Satúrnus endurvarpar getum við fundið út úr hverju hann er. Í ljósinu eru nefnilega fingraför efnanna. Á þennan hátt höfum við komist að því að Satúrnus, rétt eins og Júpíter, er að langmestu leyti úr vetni en inniheldur líka helíum, metan og ýmis önnur efni í mun minni mæli.
Hvað er heitt á Satúrnusi?
Á Satúrnusi er nístingskalt enda er hann langt frá sólinni. Við miðbaug er yfir –150°C frost og enn kaldara við pólana.
Hvernig er veðrið á Satúrnusi?
Stormur á Satúrnusi (ljósu skýin). Örþunnir hringarnir varpa skugga á suðurhvelið. Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI |
Satúrnus er stormasamur eins og hinir gasrisarnir í sólkerfinu, þótt á honum séu venjulega ekki risavaxnir og langlífir stormar á borð við Stóra rauða bletinn á Júpíter. Um það bil einu sinni á hverju Satúrnusarári (30 Jarðár), þegar vorar á norðurhvelinu, byrjar einhver ólga í skýjaþykkninu sem brýst út sem mikill stormur.
Í byrjun árs 2011 birtist slíkur stormur. Hann varð svo stór að hann umlék alla reikistjörnuna og beit að lokum í skottið á sér. Vindhraðinn náði um 500 m/s þegar mest var! Þetta var stærsti og öflugasti stormur sem menn hafa séð á Satúrnusi.
Cassini geimfar NASA fylgdist náið með storminum geysa á Satúrnusi en hann sést á myndinni hér til hliðar. Þrumur og eldingar sáust og heyrðust í mælitækjum geimfarsins en þær urðu til við mikið regn og haglél í skýjum Satúrnusar.
Satúrnus er ein vindsamasta reikistjarna sólkerfisins. Aðeins Neptúnus hefur öflugri vinda.
Úr hverju eru hringar Satúrnusar?
Þegar Galíleó Galílei skoðaði Satúrnus fyrstur manna með stjörnusjónauka árið 1610, tók hann eftir tveimur oddum sem virtust skaga út úr sitt hvorri hlið hans. Hann undraðist mjög það sem hann sá og gat ekki útskýrt hvað um væri að ræða.
Sextíu og fimm árum síðar skoðaði annar ítalskur stjörnufræðingur, Giovanni Cassini að nafni, Satúrnus með mun betri sjónauka en Galíleó og taldi að um hringa væri að ræða. Enginn vissi þó úr hverju hringarnir voru fyrr þremur öldum seinna þegar menn rannsökuðu ljósið sem endurvörpuðust af hringunum. Hringarnir reyndust úr frosnu vatni og ryki, aðallega kolefni — skítugum ís!
Hringarnir eru við miðbaug Satúrnusar og ná marga tugi þúsunda kílómetra út í geiminn. Þeir eru hins vegar örþunnur miðað við breidd, aðeins um 20 metra þykkir!
Smæstu agnirnar í hringunum eru minni en sandkorn en þær stærstu á stærð við kæliskápa eða bifreiðar, jafnvel hús. Í raun má segja að ísinn í hringum Satúrnusar séu mjög svipaðir ísjökunum á Jökulsárlóni að stærð og útliti. Ef öllum ögnunum væri hnoðað saman í einn hnött yrði hann í mesta lagi 10 km í þvermál — álíka stór og vegalengdin milli Reykjavíkur og Hvolsvallar.
Hvernig urðu hringar Satúrnusar til?
Enginn veit nákvæmlega hvernig hringar Satúrnusar urðu til. Kannski hefur Satúrnus alltaf verið með hringa. Líklegra er að hringarnir séu ungir. Væru hringarnir gamlir væru þeir miklu skítugri og því mun dekkri en þeir eru.
Hringarnir eru að öllum líkindum leifar halastjarna og ístungla sem hafa tvístrast vegna flóðkrafta frá Satúrnusi.
Hvað hefur Satúrnus mörg tungl?
Hér sjást tunglin Títan og Díóna fyrir framan Satúrnus. Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI |
Satúrnus hefur að minnsta kosti 62 tungl. Langflest eru lítil, innan við 10 til 50 km að þvermáli.
Títan er langstærsta tungl Satúrnusar og næst stærsta tunglið í sólkerfinu á eftir Ganýmedesi. Títan er einstakt því það er eina tunglið í sólkerfinu sem hefur þykkan lofthjúp. Það gerir tunglið sérstaklega áhugavert. Þótt yfirborðið sé nístingskalt — þar er meira um 170°C frost — eru þar stöðuvötn, ár og lækir — ekki úr vatni heldur fljótandi metani! Eitt stöðuvatnið heitir Mývatn!
Önnur tungl eru ekki síður forvitnileg. Hér eru punktar um nokkur:
-
Enkeladus er ístungl með goshveri sem spúa frosnu vatni út í geiminn! Þetta frosna vatn myndar einn af hringum Satúrnusar.
-
Annar helmingur Japetusar er svartur en hinn hvítur. Um miðbaug Japetusar er líka mikill fjallgarður sem veldur því að hann lítur út eins og risavaxin hneta!
-
Mímas hefur stærðarinnar gíg svo tunglið minnir óneitanlega á Helstirni Svarthöfða úr Stjörnustríði. Áreksturinn sem myndaði gíginn sundraði næstum Mímasi.
Nýjustu tungl Satúrnusar bera nöfn norrænna gyðja og goða, til dæmis Fenrir, Kári, Surtur, Ýmir og Logi.
Get ég séð Satúrnus á himninum?
Satúrnus sést leikandi á næturhimninum þegar hann er á lofti yfir okkur. Hann er álíka björtur og björtustu stjörnur en þekkist af því að hann tindrar ekkert og er áberandi gulleitur.
Satúrnus er hreint út sagt stórkostlegur á að líta í gegnum stjörnusjónauka. Hringarnir blasa við og í lofthjúpnum sjást ljósleit og dökkleit skýjabelti. Með stórum og góðum áhugamannasjónaukum sést jafnvel Cassini geilin í hringunum og skugginn sem fellur af reikistjörnunni á hringana. Þá tekur Hringadróttinn sjálfur á sig þrívíða mynd sem engin örnnur reikistjarna fær í gegnum hefðbundinn sjónauka,
Maður þarf alls ekki stóran sjónauka til að sjá Satúrnus vel en nauðsynlegt er að ná að minnsta kosti 50-faldri stækkun, nokkuð sem allir stjörnusjónaukar eiga að ráða auðveldlega við. Meira að segja lítill sjónauki eins og Galíleósjónaukinn sýnir manni hringana í öllu sínu veldi. Slíkur sjónauki á að vera til í skólanum þínum! Fáðu að prófa!
Staðreyndir um Satúrnus
Aldur: |
Um 4,6 milljarðar ára |
Þvermál: |
120.536 km (Jörðin kæmist um 9 sinnum fyrir þvert í gegnum Satúrnus!) |
Massi: |
568.319.000.000.000.000.000.000.000 kg (5,68 x 1026 kg), 95 sinnum þyngri en Jörðin! |
Meðalfjarlægð frá sólinni: |
1.400.000.000 km (9,5 sinnum lengra frá sólinni en Jörðin) |
Snúningstími: |
10 klst 32 mín |
Umferðartími (um sólina): |
30 ár |
Hitastig efst í lofthjúpi: |
–180°C |
Þyngdarkraftur: |
1,06 sinnum meiri en á Jörðinni. Ef þú vegur 50 kg á Jörðinni værir þú 53 kg á Satúrnusi |
Fróðleg staðreynd: |
Á Satúrnusi er rigning! Reyndar rignir ekki vatnsdropum heldur fljótandi helíumi. |
Lærðu meira um Satúrnus
-
Myndasafn NASA af Satúrnusi (á ensku)
Höfundur: Sævar Helgi Bragason