Smástirni

  • smástirni, Gaspra

Á braut um sólina eru ótalmargir litlir hnettir og hnullungar úr bergi og málmum. Þeir eru of litlir til að kallast reikistjörnur svo við nefnum þá smástirni.

Smástirni eru leifar frá myndum sólkerfisins. Þau eru efnið sem ekki varð að reikistjörnum eða tunglum eða brot úr öðrum hnöttum sem hafa sundrast við árekstra.

Smástirni eru sjaldnast hnattlaga, heldur eru þau óregluleg eins og grjótið sem er í kringum okkur hér á Jörðinni. Flest eru mjög dökk, dekkri en kolamoli!

Í gegnum tíðina hafa smástirni rekist á hnetti í sólkerfinu okkar. Það dugir að horfa upp til tunglsins til að sjá það. Allir gígarnir á tunglinu eru nefnilega ör eftir árekstra smástirna og halastjarna! 

Hvað eru til mörg smástirni?

Ekki er vitað hversu mörg smástirnin eru nákvæmlega.  Útreikningar og áætlanir vísindamanna benda til þess að í sólkerfinu okkar séu meira en 100 milljón smástirni!

Lítil smástirni eru miklu algengari en stór. Aðeins eitt er mun stærra en Ísland, langflest eru miklu minni. 

Þótt smástirnin séu mörg eru þau svo lítil að ef við hnöðuðum öllum saman í einn hnött yrði hann samt minni en tunglið!

Hvaða smástirni er stærst?

smástirni, Vesta, Lútesía, itokawa, Gaspra, Ida, Eros, Steins, Mathilde
Stærðarsamanburður á smástirnum sem geimför hafa heimsótt hingað til. Mynd: NASA/JPL-Caltech/JAXA/ESA

Öll smástirnin eru miklu minni en Jörðin og miklu minni en tunglið. Stærsta smástirnið í sólkerfinu heitir Ceres. Það er 975 km í þvermál eða um það bil tvöfalt breiðara en Ísland. Ceres er eina smástirnið sem er nógu stórt til að vera kúlulag og er þess vegna líka dvergreikistjarna. Það var líka fyrsta smástirnið sem fannst.

Ceres er tæplega helmingi stærra en næststærsta smástirnið, Vesta, sem er álíka breitt og Ísland.

Hvar eru smástirnin í sólkerfinu?

Langflest smástirni eru á svæði milli Mars og Júpíters sem kallað er smástirnabeltið. Þau urðu sennilega til þar þegar sólkerfið okkar var að myndast. Nálægðin við Júpíter kom sennilega í veg fyrir að reikistjarna myndaðist.

Smástirni eru víðar í sólkerfinu, til dæmis í námunda við Jörðina. Þau sem komast næst Jörðu eru kölluð jarðnándarsmástirni.

Úr hverju eru smástirni?

smástirni, Mathilde
Smástirnið Mathilde er að mestu úr kolefni. Mynd: NASA/JPL/JHUAPL

Smástirni eru aðallega úr bergi og málmum eins og járni og nikkel. Sum innihalda mikið vatn og kolefni og meira að segja lífræn efni líka (þó auðvitað ekki líf!).

Af þessum sökum halda margir stjörnufræðingar því fram að þegar smástirnum rigndi yfir Jörðina í árdaga sólkerfisins, hafi þau borið með sér vatn og efni sem eru nauðsynleg lífi.

Við getum að minnsta kosti verið nokkuð viss um að hluti vatnsins sem við erum úr og drekkum hafi borist til Jarðar með smástirnum.

Geta smástirni rekist á jörðina?

Chicxulub-gígurinn, loftsteinagígur
Staðsetning „Risaeðlugígsins“ í Mexíkó sem varð til þegar 10 km breitt smástirni rakst á Jörðina!

Já, smástirni hafa margoft rekist á Jörðina og munu halda áfram að rekast á Jörðina í framtíðinni.

Fyrir 65 milljónum ára rakst um það bil 10 km breitt smástirni á Jörðina með þeim afleiðingum að 75% af öllu lífi á Jörðinni dó út, þar á meðal risaeðlurnar.

Gígurinn sem myndaðist er að finna á Yucatánskaga í Mexíkó en hann er um 200 km í þvermál!

Fyrir 50 þúsund árum rakst 30-50 metra breitt smástirni úr járni á Arizona í Bandaríkjunum. Þá varð til gígur sem er meira en 1 km á breidd og næstum 200 km djúpur! Brot úr þessu smástirni hafa fundist.

Barringergígurinn, loftsteinagígur
Loftsteinagígurinn í Arizona er 50.000 ára gamall!

Þann 15. febrúar 2013 sprakk um 20 metra breitt smástirni yfir borginni Chelyabinsk í Rússlandi. Sprengingunni fylgdi öflug höggbylgja sem sprengdi rúður og felldi mannvirki. Næstum 1.500 manns slösuðust!

Aldrei áður í sögunni hefur jafn margt fólk slasast af völdum smástirnaáreksturs.

Við vitum ekki hvenær næsta smástirni rekst á Jörðina en stjörnufræðingar eru að leita með öflugum sjónaukum.

Engin stór smástirni stefna á Jörðina í nánustu framtíð, svo það er engin ástæða til að óttast neitt.

Hver er munurinn á smástirni og halastjörnu?

Smástirni eru litlir hnettir úr bergi og/eða málmum en halastjörnur eru að mestu leyti úr ís. Smástirnin eru flest nálægt sólinni en halastjörnurnar eru yst í sólkerfinu, þar sem fimbulkuldi ríkir.

Þegar halastjarna kemst nálægt sólinni byrjar hún að gufa upp vegna hitans. Það gerist ekki í tilviki smástirna.

Gæti maður gengið á smástirni?

Smástirni eru mjög lítil en hafa vitaskuld þyngdarkraft. Hversu sterkur þyngdarkrafturinn er fer eftir stærð smástirnisins. Stærstu smástirnin hafa mestan þyngdarkraft en þau minnstu sáralítinn.

Geimfari gæti leikandi staðið á stærstu smástirninum. Þau hafa samt svo lítinn þyngdarkraft að geimfari gæti hoppað upp og komist á braut um smástirnið, eins og geimfar eða tungl!

Mun erfiðara væri að ganga á minnstu smástirnunum því þau hafa mjög veikan þyngdarkraft. Geimfari myndi svífa í kringum þau!

Hafa geimför heimsótt smástirni?

smástirni, Ida, Ída, Daktýl, Dactyl
Smástirnið Ída og tunglið Daktýl í fjarska. Mynd: NASA/JPL

Nokkur geimför hafa heimsótt smástirni hingað til. Á leið sinni til Júpíters fór Galíleó geimfarið í gegnum smástirnabeltið og flaug fyrst framhjá Gaspra árið 1991.

Tveimur árum síðar þaut geimfarið framhjá smástirninu Ídu. Þá kom í ljós að Ída hafði tungl! Það var fyrsta fylgitungl smástirnis sem fannst.

Þann 14. febrúar árið 2000 lenti geimfarið NEAR Shoemaker á yfirborði smástirnisins Eros. Áður hafði geimfarið gert rannsóknir á smástirninu af braut um það.

Í september 2005 byrjaði japanska geimfarið Hayabusa að rannsaka smástirnið Itokawa. Itokawa er sérkennilegt smástirni, eiginlega nokkurs konar ruslahaugur úr bergi sem er lauslega límdur saman. Hayabusa sótti ryk af yfirborðinu og sneri með heim til Jarðar.

smástirni, Itokawa
„Ruslahaugurinn“ Itokawa. Mynd: JAXA

Dawn geimfar NASA var á sveimi yfir næst stærsta smástirninu í sólkerfinu, Vestu, frá 2011 til 2012. Eftir það flaug geimfarið burt og er nú á leiðinni til Ceresar, stærsta smástirnisins. Þangað verður farið komið árið 2015.

Árið 2016 verður svo OSIRIS-REx geimfari NASA skotið á loft. OSIRIS-REx á að heimsækja smástirni sem heitir Bennu.

Í framtíðinni gætu geimfarar hugsanlega farið í ferðalög til smástirna.


Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica