Nöfn reikistjarnanna
Af hverju heita reikistjörnurnnar þessum nöfnum?
Þegar forfeður okkar litu til himins sáu þeir að sumar stjörnur virtust ferðast eftir himninum á meðan aðrar stjörnur voru fastar á sama stað.
Stjörnurnar sem hreyfðust ekki kölluðu þeir fastastjörnur en hinar sem reikuðu um himininn nefndu þeir plánetur eða reikistjörnur. Í dag vitum við að reikistjörnurnar snúast í kringum sólina á meðan fastastjörnurnar eru sólir í órafjarlægð.
Nöfnin sem við notum fyrir reikistjörnurnar eru komin frá Rómverjum og Grikkjum. Þeir nefndu þær eftir guðum sínum, enda var vit í því.
Merkúríus geystist eins og sendiboði guðanna um himininn; Venus var svo skær og fögur að hún var nefnd eftir gyðju ástar og fegurðar og blóðrauða reikistjarnan Mars var nefndur eftir stríðsguðnum. Júpíter var oftast bjartastur og því nefndur eftir konungi guðanna en Satúrnus eftir föður Júpíters.
Þetta voru reikistjörnurnar sem sáust með berum augum. En hvað gerðu menn þá þegar sjónaukinn kom til sögunnar og fleiri reikistjörnur fundust?
William Herschel vildi kalla reikistjörnuna sem hann fann „Georg“! |
Árið 1781 varð William Herschel fyrsti maðurinn í sögunni til að uppgötva reikistjörnu. Herschel fann reikistjörnuna fyrir slysni með sjónauka sem hann smíðaði sjálfur.
En hvað átti nýja reikistjarnan að heita? Herschel vildi heiðra konung Englands, Georg III, og nefna reikistjörnuna eftir honum. Í sólkerfinu okkar yrðu þá reikistjörnurnar Merkúríus, Venus, Jörðin, Mars, Júpíter, Satúrnus og... Georg?!
Fólk var nú ekki alveg sátt við að nefna nýju reikistjörnuna Georg. Annar stjörnufræðingur stakk þess vegna upp á því, að hún fengi samskonar nafn og hinar reikistjörnurnar. Hann vildi nefna hana Úranus eftir gríska himnaguðinum. Úranus var pabbi Satúrnusar og afi Júpíters.
Sama var gert þegar ysta reikistjarna sólkerfisins fannst árið 1846. Hún var nefnd Neptúnus eftir sjávarguði Rómverja.
Plútó var svo nefndur eftir guði undirheimanna enda óralangt í burtu frá sólinni.
Höfundur: Sævar Helgi Bragason