Venus

Ástarstjarnan

  • Venus, Mariner 10

Í 108 milljón km fjarlægð frá sólinni er Venus. Hún er sveipuð þykkri skýjaslæðu sem endurvarpar svo miklu ljósi að frá Jörðu séð er hún jafnan bjartasta stjarnan á himinhvolfinu. Skýin fela leyndardóma hennar fyrir okkur en undir þeim leynast stærðarinnar eldfjöll og víðáttumikil hraun. Venus er heitasta reikistjarna sólkerfisins.

Reikistjarnan er nefnd eftir gyðju ástar og fegurðar, enda  björt og ægifögur á himninum. Venus var dóttir Júpíters og meðal ástmanna hennar voru stríðsguðinn Mars og eldfjallaguðinn Vúlkan. Sonur hennar var ástarguðinn Amor sem fæddist í gulleggi. 

Í norrænni goðafræði er ástar- og örlagagyðjan Frigg Fjörgynsdóttir, kona Óðins og móðir Baldurs, hliðstæða Venusar. Venus hefur þess vegna stundum verið nefnd Friggjarstjarnan á íslensku.

Af hverju er Venus stundum kölluð tvíburasystir jarðar?

Miðað við stærð og massa líkist Venus Jörðinni mest af öllum reikistjörnum sólkerfisins. Venus og Jörðin eru líka úr samskonar efnum, bergi og málmum. Þess vegna er Venus stundum kölluð tvíburasystir Jarðar.

bergreikistjörnur, innra sólkerfið
Bergreikistjörnurnar Merkúríus, Venus, Jörðin og Mars. Merkúríus er minnstur, þá Mars, svo Venus og loks Jörðin. Mynd: Lunar and Planetary Institute

Hvað er heitt á Venusi?

Venus, Mariner 10
Heitasta reikistjarna sólkerfisins, Venus, séð með augum Mariner 10 geimfarsins. Mynd: NASA/JPL/Mattias Malmer

Venus er heitasta reikistjarna sólkerfisins — heitari en Merkúríus, þótt hann sé mun nær sólinni en Venus. Á Venusi er alltaf í kringum 480°C hiti!

En hvers vegna er svona heitt á Venusi?

Gróðurhúsaáhrif!

Lofthjúpur Venusar er að mestu leyti úr gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíði, sömu gastegund og Jarðarbúar brenna í gríð og erg og spúa út í andrúmsloftið. Á Venusi veldur koldíoxíð óðagróðurhúsaáhrifum. Á Venusi eru engin höf eða plöntur sem geta bundið koldíoxíðið eins og á Jörðinni. Tvíburasystir Jarðar gæti því varla verkið mikið ólíkari. Venus er sennilega það sem við kæmumst næst helvíti miðað við paradísina Jörð.

Venus er okkur jarðarbúum því þörf áminning um hvað gæti gerst ef við förum ekki vel með lofthjúpinn okkar. Við gætum nefnilega hæglega breytt himnaríki í helvíti ef við breytum ekki hegðun okkar.

Er líf á Venusi?

Venus, þverganga, sólin
Venus fyrir framan sólina séð úr japanska geimfarinu Hinode. Venus er líflaus hnöttur. Mynd: JAXA

Venus er líflaus hnöttur eftir því sem við komumst næst. Ekkert líf eins og við þekkjum það þrífst við slíkan ógnarhita.

Eitt sinn héldu menn samt að á Venusi væri líf. Þegar stjörnufræðingar horfðu á Venus í gegnum sjónauka komust þeir fljótt að því að ekki sást niður á yfirborðið vegna skýjaþykknis. Úr hverju voru ský ef ekki úr vatni? Fyrst skýin voru svona þykk hlaut að vera þar mikið vatn. Og hvar er mikið vatn? Til dæmis á fenjasvæðum, mýrum og svo framvegis. Og ef á Venusi voru fen og mýrar, hvers vegna væru þar ekki líka flugur og spendýr, jafnvel risaeðlur og fólk! 

Rithöfundar og jafnvel vísindamenn gáfu ímyndunaraflinu lausan tauminn. Þeir sáu fyrir sér að á Venusi byggi fólk sem væri sólbrúnt, enda miklu nær sólinni en Jarðarbúar. Kannski væri veðrið þar ekkert ósvipað veðrinu á Flórída; hlýtt og notalegt!

Það var ekki fyrr en leið á 20. öldina að menn komust að hinu sanna um Venus: Venus var líflaus og brennheit.

Er rigning á Venusi?

Já, á Venusi rignir. Rigningin er reyndar ekki úr vatni heldur sýru, brennisteinssýru. Á Venusi er sem sagt súrt regn.

Brennisteinssýran er mjög tærandi. Hún getur meira að segja brætt sig í gegnum geimför á leið í gegnum lofthjúp Venusar. Brennisteinssýra leysir líka upp prótein og lípíð, svo ef þú færð dropa á húðina byrjar hún að brenna og leysa húðina upp!

Rigningin á Venusi nær aldrei niður á yfirborðið vegna hitans. Hún gufar upp áður.

Eru eldfjöll á Venusi?

Iðunn Mons, eldfjall, Venus
Ratsjármynd af eldfjallinu Iðunn Mons  á Venusi. Mynd: NASA/JPL-Caltech/ESA

Á Venusi eru mörg eldfjöll. Við höfum aldrei orðið vitni að eldgosi þar hingað til en engin ástæða er til að ætla að eldfjöllin séu ekki virk. Líklega verða eldgos reglulega á Venusi.

Stærsta eldfjallið á Venusi er dyngja — eins og Skjaldbreiður norðan við Þingvelli — sem heitir Þeiafjall. Það er 6.000 metra hátt eldfjall og stærra en Ísland að flatarmáli!

Á Venusi er líka lengsta hrauntröð (farvegur hraunstraums) í sólkerfinu, Baltisdalur. Þessi hrauntröð er lengri en Nílarfljót, lengsta fljót Jarðar!

Basalt er algengasta bergið á Venusi, rétt eins og hraunin á Íslandi.

Hvað er einn dagur langur á Venusi? En árið?

Venus snýst hægast allra reikistjarna sólkerfisins um sjálfa sig. Einn dagur á Venusi er 243 jarðardagar! Venus er hins vegar aðeins 224 daga að ganga umhverfis sólina.

Með öðrum orðum er árið styttra en sólarhringurinn á Venusi!

Venus snýst ekki aðeins löturhægt um sjálfa sig, heldur einnig í öfuga átt miðað við hinar reikistjörnurnar. Allar reikistjörnurnar snúast rangsælis um möndul sinn (eins og klukka sem gengur aftur á bak) nema Venus sem snýst réttsælis um möndul sinn (eins og klukka sem gengur rétt). Ef þú stæðir á yfirborðinu sæir þú sólina rísa í vestri og setjast í austri, öfugt við það sem við eigum að venjast á Jörðinni.

Hafa geimför heimsótt Venus?

Venera, Venus
Venera geimfar í smíðum. Nokkur slík lentu á Venusi. Mynd: Wikimedia Commons

Fjöldi ómannaðra könnunarfara hafa heimsótt Venus. Flest hafa flogið framhjá reikistjörnunni en nokkur hafa komist á braut um hana eða lent á henni.

Vegna mikils loftþrýstings og hitans endast lendingarför ekki lengi á yfirborði Venusar, sum jafnvel í innan við klukkustund! Fyrsta geimfarið sem lenti á Venusi, sovéska geimfarið Venera 7, entist í aðeins 23 mínútur!

Skondnasta atvikið í geimkönnunarsögu Venusar varð árið 1982. Þá lenti Venera 14 á Venusi. Á Venera 14 var armur sem átti að teygja sig í grjót og efnagreina það. Ekki vildi betur til en svo að armurinn teygði sig beint í linsuhlífina af myndavél geimfarsins, sem hafði kastast af því við lendinguna, svo ekki reyndist unnt að greina bergið!

Frá árinu 2006 hefur evrópska geimfarið Venus Express verið við rannsóknir á Venusi. Engir leiðangrar til Venusar eru fyrirhugaðir í nánustu framtíð.

Get ég séð Venus á himninum?

Venus að degi til
Hægt er að sjá Venus um hábjartan dag, ef maður veit hvert á að horfa. Mynd: © Stefan Seip - astromeeting.de  

Já, þegar Venus sést á himninum er hún alltaf bjartasta stjarnan á himninum. Aðeins sólin og tunglið geta verið bjartari. Venus er raunar svo björt að hægt er að koma auga á hana um hábjartan dag, ef þú veist hvert á að horfa.

Þar sem Venus er nær sólinni en Jörðin er hún ýmist kvöldstjarna eða morgunstjarna. Þegar hún er kvöldstjarna sést hún í vestri eftir sólsetur. Þegar hún er morgunstjarna sést hún í austri rétt áður en sólin rís. Stundum er hægt að sjá Venus bæði á kvöldin og morgnana frá Íslandi. Einnig kemur fyrir að Venusi sé á lofti allan sólarhringinn frá okkur séð.

Venus er svo björt og áberandi að hún er stundum talið eitthvað annað fyrirbæri. Þegar hún er á lofti halda sumir að um Alþjóðlegu geimstöðina sé að ræða, þótt hún sjáist reyndar ekki frá Íslandi.

Þótt Venus sé björt og fögur að sjá með berum augum er lítið að sjá á henni í gegnum sjónauka. Venus gengur í gegnum kvartilaskipti eins og tunglið sem sést vel í gegnum sjónauka.

Árið 2012 gekk Venus fyrir sólina frá Jörðu séð. Slíkur atburður er mjög sjaldgæfur og sést aðeins á rúmlega 100 ára fresti. Næst gengur Venus fyrir sólina frá Jörðu séð árið 2117!

Staðreyndir um Venus

Aldur:
Um 4,6 milljarðar ára
Þvermál:
12.104 km (95% af stærð Jarðar)
Massi:
4.867.320.000.000.000.000.000.000 kg (4,8 x 1024 kg), ~81% af massa Jarðar
Meðalfjarlægð frá sólinni:
108 milljón km
Snúningstími:
243 dagar
Umferðartími (um sólina):
225 dagar
Yfirborðshitastig:
Um +480°C
Þyngdarkraftur:
90% af þyngdarkrafti Jarðar. Ef þú ert 50 kg á Jörðinni værir þú 45 kg á Venusi.
Fróðleg staðreynd:
Á Venus er dagurinn lengri en árið!

Lærðu meira um Venus

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica