Meyjan

Mærin

  • stjörnumerki, stjörnuhiminn, Meyjan

Meyjan er oft sögð vera réttvísisgyðjan Díka, dóttir Seifs og Þemisar. Hún er líka þekkt sem Astræa, dóttir Astræusar (föður stjarnanna) og Eosar, gyðju dögunar. Á kortum er Meyjan gjarnan sýnd með vængi eins og engill sem heldur á kornaxi í vinstri hendi (stjarnan Spíka).

Díka bjó á jörðinni á gullöld mannkynsins, þegar Krónos réði ríkjum á Ólympusfjalli, á tímum friðar, ástar og hamingju, þegar matur spratt stöðugt úr jörðu. Menn eltust ekki, lifðu eins og kóngar sem þekktu ekki sorg, vinnu, glæpi eða styrjaldir. Díka ferðaðist milli þeirra og dreifði vísdómsorðum.

Þegar Seifur felldi föður sinn af stalli fór að síga á ógæfuhliðina. Seifur kynnti árstíðaskipti til sögunnar, menn urðu þrætugjarnir og hættu að halda guðunum í heiðri. Díku varð um og ó og varaði menn við að þetta væri aðeins lognið á undan storminum. Hún breiddi út vængi sína og sneri baki í mannkynið.

Þegar járn- og bronsaldirnar gengu í garð hófust erjur manna á millum sem Díka þoldi ekki. Yfirgaf hún þá jörðina og flaug til himna þar sem hún situr enn í dag næst tákni réttvísinnar, stjörnumerkinu Voginni.

Önnur goðsögn segir frá korngyðjunni Demeter, dóttur Krónosar og Rheu. Demeter eignaðist dótturina Persefónu (meyjuna) með Seifi. Persefónu hefði ætíð verið hrein mey ef ekki hefði verið fyrir frænda hennar, undirheimaguðinn Hades, sem rændi henni þegar hún týndi blóm dag einn á Sikiley. Hades fór með hana til Undirheima og gerði henni að vera drottning hans.

Demeter leitaði um alla jörð að dóttur sinni. Hún kenndi ökrunum á Sikiley um hvarfið svo uppskerubrestur varð. Í örvæntingu sinni spurði hún Stórabjörn hvað hent hefði en þar sem atburðurinn varð að degi til, beindi hann spurningunni til sólarinnar sem sagði Demeter hvað hefði gerst.

Demeter reiddist og krafðist þess að Seifur bæði bróður sinn um að skila dóttur þeirra. Seifur samþykkti að reyna en var of seinn. Persefóna hafði gætt sér á granateplafræjum í Undirheimum og gat þess vegna aldrei snúið aftur til yfirborðs jarðar. Gerð var málamiðlun sem fól í sér að Persefóna mátti verja hálfi ári í Undirheimum með húsbónda sínum og hálfu ári ofanjarðar með móður sinni. Hér er komin útskýring á árstíðaskiptunum.

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica