Naðurvaldi
Fyrr á tíð þóttust menn sjá mynstur stjarna sem minnti á garp sem hélt á slöngu (nöðru). Nafnið „Naðurvaldi“ merkir einmitt „sá sem gætir höggormsins“.
Á himinhvelfingunni er Naðurvalda svo lýst sem manni sem heldur á höggormi. Höggorminum er síðan skipt í tvennt, Höggormshalann og Höggormshöfuðið.
Naðurvaldi var Asklepíus, guð lækninga og sonur Apollós. Asklepíus var framúrskarandi góður læknir en hann hafði lært hjá mannfáknum Kírni sem þótti greindastur og indælastur mannfákanna. Asklepíus var sagður geta lífgað látna menn á meðan jarðvist þeirra stóð og gerði það óspart.
Hades, sjálfur konungur undirheimanna, var vitaskuld ekki ánægður með það enda ógnaði þessi gjörningur Asklepíusar ríki hans. Hades sannfærði bróður sinn Seif um að bana Asklepíusi með því að ljóstra hann eldingu og koma fyrir á himinum sem hann á endanum gerði. Á himninum heldur Naðurvaldi svo á höggormi, tákni lækninga og visku.
Höfundur: Sævar Helgi Bragason