Júpíter

Konungur reikistjarnanna

  • Júpíter

Fimm sinnum lengra frá sólinni en Jörðin er Júpíter. Hann er æðstur reikistjarnanna, hefur flest tungl og litríka storma sem hafa geysað um aldir. Hann varð næstum því stjarna!

Rómverjar nefndu hann eftir æðsta guði sínum Júpíter. Grikkir kölluðu hann Seif eftir konungi guðanna sem bjá á tindi Ólympusfjalls og ríkti þar yfir himnunum og eldingum.

Þrumuguðinn Þór var hliðstæða Júpíters í norrænni goðafræði. Í mörgum tungumálum er fimmtudagur dagur Þórs, samanber Torsdag í dönsku og Thursday á ensku.

Hvað er Júpíter stór?

sólkerfið okkar, stærðarsamanburður, reikistjörnur, plánetur
Sólin í samanburði við reikistjörnurnar og dvergreikistjörnurnar í sólkerfinu okkar. Mynd: Roberto Ziche

Júpíter er langstærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Hann vegur 318 sinnum meira en Jörðin og er reyndar tvisvar sinnum þyngri en allar hinar reikistjörnurnar, tunglin þeirra, smástirnin, loftsteinarnir og halastjörnurnar í sólkerfinu!

Júpíter er ekki aðeins þungur heldur líka óhemju breiður — Jörðin kæmist ellefu sinnum þvert í gegnum hann. Væri Júpíter holur að innan kæmust meira en 1.300 Jarðir fyrir innan í honum.

Venjuleg farþegaþota væri næstum 490 klukkustundir eða 20 daga að fljúga stanslaust í kringum Júpíter. Til samanburðar væri farþegaþota næstum 44 klukkutíma (einn sólarhring og tuttugu klukkustundir) að fljúga samfleytt í kringum Jörðina.

Ef Júpíter væri 50 til 80 sinum þyngri en hann er væri hann stjarna. Þá væru tvær sólir í sólkerfinu okkar. Þá værum við kannski ekki til!

Úr hverju er Júpíter?

Júpíter er gasrisi, aðallega úr tveimur algengustu frumefnum alheimsins: Vetni og helíumi, eins og sólin. Hann inniheldur líka ýmis önnur efni í miklu minni mæli þó, til dæmis metan og ammóníak.

Á Júpíter er ekkert fast yfirborð svo ekki er hægt að lenda þar. Við vitum mjög lítið um það sem leynist innan í honum en teljum að í miðju hans sé kjarni úr bergi, álíka stór og Jörðin en miklu þyngri og við ógnarhita.

Umhverfis kjarnann er sennilega lag úr blöndu fljótandi vatns, metans og ammóníaks. Þar fyrir ofan er líklega lag úr vetni og helíumi sem hegðar sér eins og fljótandi málmur. Yst kemur svo lofthjúpurinn litríki.

Hvað er heitt á Júpíter?

Á Júpíter er hrollkalt. Efst í lofthjúpnum er um það bil –110°C frost!

Hvað er einn dagur langur á Júpíter?

Þar sem Júpíter hefur ekkert fast yfirborð getur verið erfitt að mæla snúningshraða hans eða lengd dagsins. Júpíter snýst nefnilega mishratt. Við miðbaug er dagurinn 9 klukkustundir, 50 mínútur og 28 sekúndur. Við pólsvæðin er dagurinn hins vegar 9 klukkustundir, 55 mínútur og 41 sekúnda. Júpíter snýst hraðast allra reikistjarna og hefur því stystan dag.

Þessi mislangi dagur veldur því að Júpíter er ekki alveg hnattlaga. Hann er flatari við pólana og feitari við miðbaug! Júpíter er því í raun sporöskjulaga. Við miðbaug er þvermálið 142.984 km en 133.708 km við pólana. Þetta sést vel í gegnum litla stjörnusjónauka.

Eru stormar á Júpíter?

Júpíter er stormasöm reikistjarna. Þar blása öflugir vindar, um það bil 180 m/s, sem geta breytt ásýnd Júpíters töluvert. Vindarnir eru að mestu knúnir áfram af innri hita Júpíters en ekki sólinni.  

Stóri rauði bletturinn er stærsti stormurinn á Júpíter. Hann er svo stór að Jörðin kæmist að minnsta kosti tvisvar sinnum fyrir innan í honum. Bletturinn er stór háþrýstistormur sem snýst rangsælis (eins og klukka sem gengur aftur á bak) um sjálfan sig á 5-6 dögum. Mesti vindhraðinn er við jaðra hans, um 120 m/s, en innan í honum er lygnara. Mælst hefur –160°C frost í blettinum.

rauði bletturinn, Júpíter, Björn Jónsson
Stóri rauði bletturinn á Júpíter. Íslenski stjörnuáhugamaðurinn Björn Jónsson setti myndina saman úr myndum sem Voyager 1 geimfarið tók árið 1979. Mynd: NASA/JPL/Björn Jónsson

Hvað hefur Júpíter mörg tungl?

Galíleótunglin
Júpíter og Galíleótunglin. Efst er Íó, þá Evrópa, svo Ganýmedes og loks Kallistó. Mynd: NASA/JPL

Júpíter hefur að minnsta kosti 67 tungl. Langflest eru mjög lítil, um 10 km í þvermál eða álíka löng og Þingvallavatn. Þessi litlu tungl ganga líka öfugan hring í kringum Júpíter (í öfuga átt miðað við snúning Júpíters) sem bendir til þess að þau séu smástirni sem Júpíter hafi fangað.

Fjögur stærstu tunglin — Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó — eru kölluð Galíleótunglin, eftir ítalska stjörnufræðingnum Galíeló Galílei sem sá þau fyrstur manna í gegnum sjónauka árið 1610. Þessi tungl eru stórmerkileg!

Íó er eldvirkasti hnöttur sólkerfisins. Evrópa er sveipuð þykkri skorpu úr ís en undir henni leynist líklega gríðarmikið haf. Hver veit nema líf leynist í hafinu!

Ganýmedes er stærsta tungl sólkerfisins og hið eina sem hefur sterkt segulsvið. Ysta tunglið Kallistó hefur svo gígóttasta yfirborðið í sólkerfinu.

Get ég séð Júpíter á himninum?

Júpíter er jafnan bjartur og áberandi á stjörnuhimninum. Aðeins tunglið og Venus (og stöku sinnum Mars) geta orðið bjartari.

Í gegnum litla stjörnusjónauka sjást Galíleótunglin fjögur sem litlir ljósdeplar við hlið gasrisans. Fylgstu með Júpíter yfir fáeina daga og þú sérð tunglin dansa í kringum hann.

Á Júpíter sjálfum sjást tvo eða þrjú brúnleit eða rauðbrún skýjabelti. Erfitt getur verið að koma auga á Stóra rauða blettinn. Til að sjá hann þarf talsverða þolinmæði og góðan sjónauka en líka horfa á réttum tíma þegar bletturinn er á þeim helmingi Júpíters sem snýr að Jörðinni.

Til að finna hann er gott að styðjast við stjörnukort mánaðarins. Í Sjónaukanum er líka alltaf sagt frá því hvar Júpíter er á himninum í hverjum mánuði.

Við hvetjum þig alveg eindregið til að skoða Júpíter!

Galíleótunglin, Júpíter, sjónauki
Í gegnum litla stjörnusjónauka má sjá allt að fjögur tungl í kringum Júpíter og dökkleit skýjabelti á honum sjálfum. Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Staðreyndir um Júpíter

Aldur:
Um 4,6 milljarðar ára
Þvermál:
142.984 km (Jörðin kæmist ellefu sinnum fyrir þvert í gegnum Júpíter!)
Massi:
1.898.130.000.000.000.000.000.000.000 kg (1,89 x 1027 kg), 317.000 sinnum þyngri en Jörðin!
Meðalfjarlægð frá sólinni:
778.000.000 km (5 sinnum lengra frá sólinni en Jörðin)
Snúningstími:
9 klst 50 mín 28 sek
Umferðartími (um sólina):
12 ár
Hitastig efst í lofthjúpi:
–110°C
Þyngdarkraftur:
2,5 sinnum meiri en á Jörðinni. Ef þú vegur 50 kg á Jörðinni værir þú 125 kg á Júpíter!
Fróðleg staðreynd:
Engin reikistjarna snýst hraðar um sjálfa sig en Júpíter. Það þýðir að dagurinn á Júpíter er sá stysti meðal reikistjarna sólkerfisins.

Lærðu meira um Júpíter

Höfundur: Sævar Helgi Bragason


 

Vekur áhuga yngsta fólksins á undrun alheimsins!

Þetta vefsvæði byggir á Eplica