Að skoða stjörnurnar
Stjörnuskoðun getur verið ótrúlega skemmtilegt og gefandi áhugamál. Skiptir þá engu hvort þú átt stóran, lítinn eða bara alls engan sjónauka. Ef þú hefur aldrei farið í stjörnuskoðun eða ert hugsanlega nýbúin(n) að eignast sjónauka er mikilvægt að vita hvernig best er að bera sig að.
Hér eru nokkur skref sem hjálpa þér að koma þér af stað í áhugamálinu.
1. Lærðu á himinninn með berum augum
Margir eignast sjónauka fyrst og ætla svo að læra á himininn. Það er í góðu lagi en enn betra er að læra að þekkja himinninn áður en maður byrjar að nota sjónauka.
-
Horfðu á vefþáttinn Sjónaukann til að fá upplýsingar um það helsta sem sjá má á himninum.
-
Sæktu stjörnukort mánaðarins, það hjálpar þér að læra að þekkja stjörnumerkin og finna fyrirbærin sem sjást á himninum.
-
Klæddu þig vel (MJÖG VEL) og farðu út! Reyndu að finna helstu stjörnumerki á himninum. Byrjaðu á áberandi merkjum eins og Stórabirni (Karlsvagninum). Sést einhver reikistjarna á himninum? Bættu nýjum merkjum og stjörnum við næst þegar þú ferð í stjörnuskoðun.
2. Kynntu þér það sem þú sérð
Það er miklu skemmtilegra að vita eitthvað um það sem þú skoðar.
-
Lestu Geimurinn.is - Krakkavef Stjörnufræðivefsins! Á vefnum er heilmikill fróðleikur um flestallt það sem þú sérð á stjörnuhimninum.
-
Lestu um nýjustu uppgötvanir stjarnvísindamanna í SpaceScoop fréttunum okkar!
-
Heimsæktu bókasafnið í skólanum eða bænum þínum. Fáðu lánaðar bækur, t.d. Íslenskan stjörnuatlas, og tímarit um stjörnufræði, til dæmis tímarit Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
3. Byrjaðu á að nota handsjónauka
Handsjónauki er til á flestum heimilum og þá er vel hægt að nota í stjörnuskoðun. Með handsjónauka er meira að segja hægt að sjá glitrandi stjörnuþyrpingar, skínandi vetrarbrautir og draugalegar geimþokur. Á tunglinu sjást gígar og fjöll.
Þú þarft ekki að eiga besta sjónauka í heimi til að sjá ótalmargt. Handsjónauki hefur nefnilega þann kost að vera með vítt sjónsvið svo auðvelt er að fikra sig yfir himininn.
Ef þú getur, finndu þá sjónauka sem á stendur 7x50 (talan 7 þýðir að sjónaukinn stækkar 7 sinnum en 50 þýðir að linsurnar eru 50 millímetrar á breidd). Aðrir sjónaukar virka líka vel!
4. Sæktu námskeið í stjörnuskoðun
Ár hvert stendur Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness fyrir námskeiðum um stjörnufræði og stjörnuskoðun.
5. Skráðu þig í stjörnuskoðunarfélag
Það er gaman að deila áhuganum með öðrum og læra af öðrum reyndari stjörnuáhugamönnum. Besta leiðin til þess er að skrá sig í stjörnuskoðunarfélag. Á Íslandi eru fjögur stjörnuskoðunarfélög:
-
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og fjölmennasta áhugamannafélagið. Allt áhugafólk á öllum aldri geta skráð sig í félagið þótt það sé kennt við Seltjarnarness!
-
Á Akureyri er Stjörnu-Odda félagið.
-
Í Vestmannaeyjum er Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja.
-
Á Bifröst er starfrækt stjörnuskoðunarfélag á vegum nemenda í skólanum.
6. Kauptu stjörnusjónauka
Best er að prófa fyrst nýjan stjörnusjónauka í dagsbirtu. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Sverrir Guðmundsson |
Í stjörnuskoðunarfélögum er gott að fá ráðleggingar um góða sjónauka. Góður sjónauki þarf að vera á góðum fæti, vera einfaldur í notkun, hafa góð sjóntæki og stórt ljósop.
-
Lærðu á sjónaukann að degi til. Beindu sjónaukanum að einhverju í kringum þig (ALLS EKKI SÓLINA!!). Prófaðu að fókusstilla hann og skipta um stækkun.
-
Notaðu minnstu stækkun fyrst. Minnsta stækkunin gefur víðasta sjónsviðið sem auðveldar þér að finna fyrirbærin sem þú ætlar að skoða.
-
Skoðaðu fyrst tunglið og reikistjörnurnar.
Mundu að besti sjónaukinn er ekki endilega sá stærsti og dýrasti, heldur sá sem þú notar mest!
Hægt er að kaupa sjónauka frá Sjónaukar.is.
7. Vertu þolinmóð(ur) og njóttu þess að skoða stjörnurnar
Stjörnuskoðun krefst þolinmæði.
Kannski sérðu ekkert fyrsta kvöldið þitt með sjónaukanum þínum. Að læra á sjónauka tekur tíma og krefst því þolinmæði. Alls ekki gefast upp!
Stjörnurnar sjálfar eru pínulitlir punktar í gegnum alla sjónauka. Þær eru svo langt í burtu. Sama á við um vetrarbrautir, stjörnuþyrpingar og geimþokur — öll þessi fyrirbæri eru svo fjarlæg að þau munu alltaf vera daufir þokublettir í gegnum sjónauka.
Höfundur: Sævar Helgi Bragson